143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:45]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að við erum að tala um skýrslu Hagfræðistofnunar vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson hvort hann sé sammála mér í því að meginniðurstaða skýrslunnar sé sú að ekki sé um að ræða varanlegar undanþágur eða varanlegar sérlausnir, a.m.k. sé það afar ólíklegt. Ef hann er sammála mér um að þetta sé niðurstaðan væri þá ekki skynsamlegra að kjósa um hvort þjóðin vilji inn í ESB eða ekki, í staðinn fyrir að spyrja um hvort halda eigi áfram einhvers konar aðildarviðræðum?

Ég hef svo sem heyrt það á hv. þingmanni að hann telur mikið lýðræði felast í því að þjóðin kjósi um hvort þessi ríkisstjórn, sem ekki vill fara inn, haldi áfram viðræðum um inngöngu. Menn hafa borið það saman við störf lögmanns sem er að verja sakaða menn sem hann vill kannski ekki verja, en sá samanburður er auðvitað ótækur. Ég stóð ekki í því í mínum fyrri störfum að semja við sakborninga um eitt eða neitt. Ef við náðum ekki saman þá slitum við strax samstarfi okkar, þannig var það. Ég samdi ekki við þá um að komast inn í undirheimana. Þetta snerist allt um að koma þeim undan réttvísinni.