143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek undir með honum að ég held að það væri umræðunnar virði fyrir þingheim að taka alvöruumræðu um þróun lýðræðisins og hvernig við getum í auknum mæli spurt þjóðina og fengið ráðgefandi leiðsögn þaðan. Það er einfaldlega þannig að þegar við erum til dæmis í kosningabaráttu, flokkarnir, framboðin eða hvað við köllum það, þá er ýmislegt sagt. Sumt er efnt, annað ekki. Síðan er það stundum þannig eða yfirleitt er það þannig að fleiri en einn flokkur fara saman í ríkisstjórn og þá gerist það að menn þurfa að semja um einhverja þætti. Því er spurning hvort menn geti þá ekki í auknum mæli nýtt sér þjóðaratkvæðagreiðslur.

Svo geta líka auðvitað alltaf komið upp mál sem ekki voru rædd í kosningabaráttu, engin loforð liggi fyrir um eða afstaða til einhvers máls hjá þeim stjórnmálaflokkum. Og þá er fullkomlega eðlilegt að mínu mati að við horfum í auknum mæli til þjóðaratkvæðagreiðslna og spyrjum þjóðina hvað henni finnist. Síðan væri það okkar að útfæra hlutina tæknilega, þ.e. ef eitthvað þarf að lögfesta, og framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) að framkvæma það.