143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir afskaplega vænt um þessa umræðu, mér finnst hún mætti vera oftar og lengri.

Hv. þingmaður kom þarna einmitt að öðrum þætti lýðræðisins sem varðar kannski ekki bara þjóðaratkvæðagreiðslur, eins mikilvægar og þær nú eru, heldur líka hvernig kerfið sjálft er uppbyggt. Við höfum alls konar hugmyndir um hvernig vestrænt lýðræði eigi að virka með framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið, dómsvaldið og svo segja sumir fjölmiðla, fjórða valdið svokallaða. Og sumir vilja meina að Wikileaks sé fimmta valdið, ég læt það í friði.

Við þurfum að velta slíkum spurningum upp og velta fyrir okkur. Eins og gerðist í síðustu kosningum, burt séð frá því hvaða ríkisstjórn við erum með hér og nú, þá voru það 51,1% atkvæðanna sem skiluðu sér í ríkisstjórn, sem er með allt valdið eða svo gott sem. Þar er að finna lýðræðishalla, jafnvel innan kerfis sem er þó ekki heimskulega hannað, alls ekki, þetta er ekki heimskulega hannað kerfi, það þarf bara að endurskoða það reglulega og spyrja spurninganna: Er það að ná gefnu lýðræðismarkmiði? (Forseti hringir.) Mér þykir deginum skýrara að svo er ekki núna og þá eigum við að endurskoða það, (Forseti hringir.) í það minnsta tala um það opinskátt og heiðarlega. (Gripið fram í.)