143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að með inngöngu í Evrópusambandið séum við að mörgu leyti að rjúfa efnahagslega einangrun landsins. Ég er þeirrar skoðunar að upptaka evru muni hafa í för með sér aukinn stöðugleika sem muni leiða til lægri vaxta sem muni örva hér atvinnulífið, auka samkeppni, auka framleiðni, fjölga störfum, fjölga fjölbreyttari störfum. Ég er þeirrar skoðunar að aukið viðskiptafrelsi, niðurfelling tolla muni hafa í för með sér jákvæðar afleiðingar yfir íslenskt atvinnulíf.

Auðvitað eru öfl í landinu sem ekki vilja breyta neinu, sem vilja hafa hlutina eins og þeir eru, eins og þeir hafa verið og ég er sannfærður um að þessi ákvörðun þjónar bara þeim hagsmunum. (Forseti hringir.) Hún þjónar þeim sem hagnast af óbreyttu ástandi.