143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:18]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er punktur númer tvö hjá mér. Á eftir gjaldmiðlinum þá segi ég hiklaust að sá lýðræðishalli sem felst í því að vera þátttakandi í Evrópska efnahagssvæðinu og horfa upp á allar þær tilskipanir og reglugerðir og gjörðir sem á borð eru bornar fyrir okkur hér í þinginu er ekki boðlegur. Það er ekki boðlegt í fullvalda ríki að menn skuli taka upp svo veigamikla löggjöf — látum það eiga sig að margt af henni hefur verið mjög gagnlegt t.d. fyrir íslenska neytendur og fyrir íslenskt launafólk, en að Íslendingar hafi ekki beina aðkomu að gerð þessara reglna og þessum lagaramma er óboðlegt nokkurri fullvalda og sjálfstæðri þjóð. Þær málamyndaaðgerðir sem boðaðar eru í tillögu hæstv. utanríkisráðherra um margvíslegan, með leyfi forseta, lobbíisma í Brussel, duga ekki. Það er niðurstaða Noregs sem eytt hefur töluverðum fjármunum (Forseti hringir.) í það að reyna að hafa áhrif á löggjöf Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Niðurstaða þeirra er: Það dugar ekki.