143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held því fram að hv. þingmaður og hv. stjórnarþingmenn hafi ekki lýðræðislegt umboð til þess að ráðast í þá afdrifaríku aðgerð sem þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra felur í sér. Ef stjórnarflokkarnir vildu hafa slíkt umboð hefðu þeir átt að bjóða fram með það á stefnuskránni hjá sér og þeir hefðu þá átt að segja við þjóðina: Við ætlum að slíta viðræðunum við Evrópusambandið.

Þeir hefðu ekki átt að segja: Við ætlum að bera það undir þjóðaratkvæði hvort halda eigi þeim áfram. Það var alger afbökun á þeirri fyrirætlan sem nú blasir við. Ég held því fram að menn þurfi að sækja umboð til þess að gera þetta. Besta leiðin fyrir hæstv. ríkisstjórn til að gera það og eina leiðin sem hún hefur til að bjarga andlitinu í þessum efnum er að bera málið undir þjóðaratkvæði núna.