143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög fróðlegt að hlusta á þetta viðtal, sem var flutt í kvöldfréttunum á RÚV, ef ég man rétt, við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur, vegna þess að hún taldi upp öll þau atriði og ástæðurnar fyrir því að ekki væri hægt að leysa þetta nema með því að fara með málið til þjóðarinnar. Þetta væri stórt mál, þetta væri ágreiningsmál sem klyfi alla flokka. Hún nefndi að það klýfur fjölskyldur. Það eru ekki flokkslínur í þessu, enda var málið alltaf lagt upp þannig og reyndar var tillagan samþykkt hér í þinginu af fulltrúum frá öllum flokkum. Þess vegna hefði ég haldið að menn stæðu við þessa yfirlýsingu.

Ég kann ekki svarið við því, við höfum kallað eftir því hér í allri umræðunni, hvernig stóð á því að í miðri umræðu um skýrslu sem var búið að biðja okkur um að bíða eftir og átti að vera afgerandi, skuli vera kastað fram tillögu sem segir: Við ætlum ekkert að taka mark á þessu, við hættum þessu. Ég hef enga skýringu á því. Mér finnst það algjörlega óskiljanlegt.