143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá hæstv. utanríkisráðherra á vappi í hliðarsal rétt í þessu. Ef hann er að hlusta óska ég eftir því að hann komi hingað inn og svari þeirri spurningu hvað í málinu kallaði á að menn rifu í einhvern neyðarhemil til að slíta þessum viðræðum áður en blekið á skýrslunni sem hér um ræðir var þornað. Hvað olli því og hvað er það í málinu sem kallar á þann flýti að út af þessu eina máli, þegar þetta eina mál er komið hingað inn, þurfi að halda hér fundi á kvöldin, kvöld eftir kvöld, þegar menn eiga tvo og hálfan mánuð eftir af þessu þingi?

Ég skil þetta ekki og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi hingað inn og segi okkur hvers vegna þessi asi er og hvers vegna menn þurfa að ganga svona langt á þessum tímapunkti í þessum flýti.

Það mundi örugglega stytta umræðuna (Forseti hringir.) töluvert ef hann hefði bara fyrir því að koma hingað og ræða við okkur þingmenn um þetta og segja okkur sannleikann um það (Forseti hringir.) hvað þarna býr að baki.