143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það fyrr í dag í umræðunum að það væri kannski fullt tilefni til að forustumenn stjórnmálaflokkanna, og þá á ég við bæði meiri hluta og minni hluta, mundu fara yfir málið í ljósi þeirra undirskriftasafnana sem verið hafa í gangi og í ljósi þeirrar ólgu sem er í samfélaginu, að menn mundu setjast niður og reyna að finna farsæla lausn á málinu.

Komnar eru fram þrjár tillögur, þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra, tillaga okkar Pírata, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og svo tillaga frá þingflokki Vinstri grænna sem ég held að gæti mögulega verið einhver millilending í málinu og gæti kannski bjargað því sem virðist vera sökkvandi skip þingflokks og ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins, sem er að ganga í gegnum eitt mesta pólitíska gerningaveður sem maður hefur orðið vitni að í seinni tíð, algerlega að eigin vali. Það er eins og menn hafi bara tekið ákvörðun um að snúa skipinu inn í storminn og sigla beint inn í hann. Það er það sem blasir við mér.

Ég verð að segja að ég var sleginn eftir að hafa horft á viðtöl við hæstv. ráðherra í aðdraganda síðustu kosninga. Það er ekki einu sinni liðið ár frá því að þau ummæli voru látin falla.