143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel nú fullt tilefni til að hæstv. forseti kalli þá ráðherra sem rætt var um í fréttum sjónvarpsins í kvöld hingað til okkar til að ræða þau ummæli sín fyrir kosningar. Mér finnst að við þingmenn eigum fullan rétt á að fara í umræður um þessa skýrslu og um hvað það er sem hefur breyst svona gífurlega frá því að ráðherrarnir höfðu uppi þau ummæli að þjóðin ætti að fá aðkomu að þessu stóra umdeilda máli áður en næstu skref yrðu ákveðin. Mér finnst að við eigum kröfu til þeirra hæstv. ráðherra, allra fjögurra, að þeir komi hingað og geri grein fyrir því hvað hafi breytt afstöðu þeirra. Er það eitthvað í Evrópusambandinu sem hefur breyst svona mikið á þessum tíma eða hér innan lands eða í þeirra eigin hugarheimi?