143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[22:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega þannig í svona stóru máli og umdeildu, eins og við vitum og ég sagði í ræðu minni, að það klýfur ekki bara flokkana, það klýfur líka þjóðina. Það hefur komið fram á Austurvelli og hér í Alþingishúsinu, það kemur fram á samskiptamiðlum og víðast hvar. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel einnig að ríkisstjórnin hafi ekki haft heimild til að gera það sem hún gerir hér, þ.e. frá sínum kjósendum, miðað við það sem nú hefur ítrekað verið rifjað upp. Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra ítrekuðu það í sjónvarpsviðtölum að þeir hygðust standa við það að láta fara fram atkvæðagreiðslu. Það er eins og hv. þingmaður sagði, það er svolítið sérstakt að þeir gangist ekki við eigin afkvæmi, það sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Ég hef velt því mikið fyrir mér af hverju viljinn til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki til staðar. Hvað býr raunverulega að baki? Mér finnst sú kenning að þeir geti ekki gengið alla leið af því að flokkarnir vilja ekki ganga inn í Evrópusambandið ekki haldbær, samanber það sem hér hefur verið rifjað upp að fyrri ríkisstjórn gekk í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hún var ekki sátt við niðurstöðuna í en fylgdi því eftir. Ég tel þessa ríkisstjórn geta gert það líka. Þetta er alltaf spurning um það hverjir fara með samningsumboð ef niðurstaðan yrði að halda áfram viðræðum og kannski er það sem þeir óttast, að niðurstaðan verði þeim þvert um geð. Það hlýtur eiginlega að vera ástæðan fyrir því að þeir þora ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þeir þyrðu að beita lýðræðinu, ef þeir töluðu virkilega fyrir eiginlegu lýðræði, mundi maður áætla að þeir létu óhræddir slag standa.