143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[23:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst áhugavert í kvöldfréttunum hjá Ríkisútvarpinu þar sem rifjuð voru upp ummæli þriggja annarra ráðherra Sjálfstæðisflokksins en fjármálaráðherra. Það er hrein lína hjá öllum þeim einstaklingum, stjórnmálamönnum sem núna eru ráðherrar, að þeir ætluðu og lofuðu að hér yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu. Og mér fannst reyndar tilvitnunin sem var höfð eftir hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur mjög rökrétt og ég hefði getað kvittað upp á allt sem hún sagði. Hún sagði: Þetta er það stórt mál, það er þess eðlis að það klýfur ekki bara þjóðina og Alþingi heldur líka fjölskyldur og vinnustaði, og þess vegna hentar það vel til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er hjartanlega sammála því.

Það var alltaf áætlun okkar á síðasta kjörtímabili að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég sem viðræðusinni tel að málinu geti aldrei lokið öðruvísi en með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna finnst mér það mikið skemmdarverk sem verið er að vinna núna. Það gerir að verkum að menn ætla ekki bara að henda okkur á núllpunkt heldur þurfum við líka að hafa mun meira fyrir því þegar að því kemur að sækja um aftur ef þjóðin mundi kalla eftir því, sem mér þykir ekki ólíklegt að hún geri. Mér finnst ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa umboð til þess og mér finnst lágmark að þeir standi við það sem þeir sögðu í aðdraganda kosninga og lágmark að þeir fari a.m.k. eftir eigin stjórnarsáttmála.