143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[23:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að ég man ekki eftir dæmum um að við höfum vegna aðildarferlisins breytt stofnanaumgjörð í einhverja þá átt sem ekki var efnislegur vilji fyrir óháð aðildarumsókninni eða leiddi af aðild okkar að EES. Ég skora á hv. þingmann að koma með dæmi um hið gagnstæða.

Að öðru leyti vil ég segja vegna orða hv. þingmanns um að ekki væri hægt að kanna hvað í boði væri í aðildarviðræðunum að ég hef rætt þetta mál sem ráðherra og núna sem formaður stjórnarandstöðuflokks við flesta ráðamenn Evrópusambandsins. Ég hef sagt við þá alla að það hafi verið deildar meiningar í ríkisstjórninni á sínum tíma og ekki allir á einu máli. Fyrir því eru mýmörg dæmi í sögu Evrópusambandsins að þannig hafi háttað um ríki sem sótt hafa um. Allir hafa sýnt því fullan skilning. Enginn hefur sagt að það sé rangt að kíkja í pakkann. Allir hafa sagt að það sé lýðræðisleg afstaða og málefnaleg afstaða (Forseti hringir.) að vilja fá að sjá þann samning sem í boði er og greiða síðan um hann atkvæði. Ég bara bið (Forseti hringir.) um nöfnin á þeim mönnum sem hafa sagt eitthvað annað. Þetta hefur Stefan Füle sagt við mig, þetta hafa forustumenn jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sagt við mig og staðfest, (Forseti hringir.) þetta hafa ráðamenn í öðrum ríkjum sagt, þetta hefur forsætisráðherra Danmerkur (Forseti hringir.) staðfest við mig. Svona einfaldlega get ég bent á þá sem hafa staðfest að þetta sé málefnaleg (Forseti hringir.) og efnisleg afstaða. Hvað er að því að kíkja í pakkann? (Forseti hringir.) Hvaðan er sú kenning komin að ekki sé hægt að kanna hvað í boði er?

(Forseti (ÓP): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk.)