143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil alls ekki líta fram hjá vilja þjóðarinnar, alls ekki. Ég tel að vilji þjóðarinnar eigi að ráða um lyktir þessa máls, það er afdráttarlaust af minni hálfu. Það er á þeirri forsendu reyndar sem ég hef stutt þetta ferli fram til þessa, var farinn að fá miklar efasemdir um framvinduna þegar var komið fram í mitt síðasta kjörtímabil, miklar efasemdir og miklar efasemdir um hinar lýðræðislegu víddir í þessum málum.

Það sem ég var að reyna að færa rök fyrir er að öllu máli skiptir hvernig spurt er í atkvæðagreiðslu af þessu tagi, hvort spurt er réttrar spurningar sem gefur raunsanna mynd. Það var það sem ég var fyrst og fremst að leggja áherslu á.

Síðan er náttúrlega hitt að þegar við erum komin og værum komin inn í Evrópusambandið þá færi nú ekki mjög mikið (Forseti hringir.) fyrir lýðræðinu hygg ég.