143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ekkert okkar hér geti fullyrt um þjóðarvilja, hvað þjóðin vill gera í þessu efni, hvort hún er tilbúin að slíta viðræðum eður ei. (JÞÓ: Skoðanakannanir eru afdráttarlausar.) Skoðanakannanir eru líka afdráttarlausar um það að þjóðin vilji ekki ganga í Evrópusambandið og ég er að segja að ef hún ætlar að vera sjálfri sér samkvæm, okkar ágæta þjóð, koma heiðarlega fram, þá á hún að horfast í augu við sjálfa sig líka. Ef hún vill ganga í Evrópusambandið þá á hún að sækja um aðild á þeirri forsendu en ekki annarri. Það er mín skoðun.

Ég hef ekki átt viðræður við einn né neinn. Ég er stjórnarandstöðuþingmaður, hef ekki rætt við nokkurn ráðherra um þetta. Allt sem fram hefur farið af minni hálfu hefur gerst í gegnum minn þingflokk og síðan er ég að reyna að tala mínu máli og okkar hér úr þessum ræðustóli.