143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að fá svar við því hvað við verðum hér lengi. Það er ekki þannig að við séum að fá ráðherra til okkar inn í þessa umræðu þannig að ég sé ekki að það sé til mikils að halda henni áfram. Ég hélt til dæmis seinni ræðu mína áðan og hvergi var ráðherra þá þó að ég hefði óskað eftir að hann yrði hér og svaraði spurningum. Og ég sé ekki að hann sé kominn enn.

Hvers vegna á að bjóða þingmönnum upp á það að vera hér, halda sínar ræður, flytja sitt mál, spyrja spurninga og enginn er til svara? Það finnst mér ekki boðlegt. Ég fer að minnsta kosti fram á að gert sé hlé á þingfundi þangað til menn finna hæstv. utanríkisráðherra, að hann geri svo lítið sem koma hingað í þennan sal og svara að minnsta kosti spurningum þeirra sem hér taka til máls.