143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fram hefur komið hjá ýmsum hv. þingmönnum sem hér hafa talað að klukkuna vantar núna átta mínútur í tólf og það fer að nálgast miðnætti.

Ástæða þess að ég kem hingað upp er að ég heyrði hæstv. utanríkisráðherra, sem staddur er í salnum, segja það í fjölmiðlum að hugsanlega mundi hann mæla fyrir tillögu sinni, þeirri sem liggur fyrir þinginu, í nótt. Mér finnst alveg nauðsynlegt að virðulegur forseti upplýsi okkur um, eins og aðrir hv. þingmenn hafa kallað eftir, annars vegar hversu lengi áætlað er að fundurinn standi og hins vegar hvort ný mál verði tekin á dagskrá, því að vægast sagt væri lítill bragur á því ef mæla ætti fyrir málum hér í nótt. Mér finnst því mikilvægt að virðulegur forseti upplýsi hv. þingmenn hvernig nákvæmlega hann hyggist halda áfram þingstörfum.