143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og hann komst svo ágætlega að orði áðan er það því miður orðin venja hér á Alþingi að haldnir séu næturfundir og sú venja var rækilega fest í sessi á síðasta kjörtímabili. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, ef ég heyrði rétt, sagði að hana ræki ekki minni til þess að fundir hefðu verið oft haldnir fram yfir miðnætti. Hv. þm. Árni Páll Árnason vísaði til þess að forseti Alþingis hefði svarað því iðulega hvað þingfundir stæðu lengi. Ég man þetta bara allt öðruvísi. Ég man þá tíð þegar við sátum hér í þingsal kvöld eftir kvöld, nótt eftir nótt fyrir jól og milli jóla og nýárs, til að ræða um Icesave-samningana. Þannig var það, þessi leiða venja myndaðist.

Vonandi tekst okkur að snúa þessu við en ég verð þó að segja eitt: Hér rétt fyrir miðnætti voru ágætar ræður (Forseti hringir.)um efnishlið frumvarpsins og ég velti því fyrir mér hvort sá tími sem hefur (Forseti hringir.) farið í fundarstjórn nálgist ekki þá efnislegu umræðu sem þó hefur farið fram.