143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir efnisrök þeirra sem hér hafa talað fyrir því að umræðu um þetta mál verði haldið áfram á morgun. Það er mjög sérstakt að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki haft áhuga á samkomulagi við stjórnarandstöðuna um einn eða neinn þátt þessa máls þótt það hafi ítrekað verið í boði.

Nú er virðulegi forseti kominn í forsetastól og ég vil þá endurtaka það sem ég sagði áðan í fyrri ræðu minni um fundarstjórn forseta. Ég vil minna forseta á að það skiptir miklu máli að forseti sæki á stjórnarmeirihlutann í umræðum og í meðferð mála. Það gerði forseti Alþingis með miklum sómabrag á síðasta kjörtímabili, stóð með stjórnarandstöðunni og hafði hemil á eigin fólki í stjórnarmeirihlutanum. Ég sakna þess sama myndugleika núna af hálfu forseta og ég segi það hreint og klárt. Af hálfu okkar hafa verið í boði ítrekaðar sanngjarnar tillögur um meðferð mála og okkur hefur ekki verið svarað, (Forseti hringir.) gengið fram af fáheyrðum fautaskap. Ég sakna þess að forseti standi með stjórnarandstöðunni.