143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:06]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hafði samband við mig reyndur togaraskipstjóri hér í kvöld og hann átti ekki til orð yfir þessi vinnubrögð hér á Alþingi. Hann sagðist mundu vera búinn að reka þetta fólk allt saman ef það væri í vinnu hjá honum. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Það er reyndur togaraskipstjóri. (Gripið fram í: Ó?) Hér stendur fólk, hv. þingmenn (Gripið fram í.) og býsnast yfir því hversu mikið er eftir að gera. Það er búið að koma hingað upp trekk í trekk og ræða allt annað og gera allt annað en að fara í þá vinnu sem eftir er að vinna. (Gripið fram í.) Við erum að ræða hér skýrslu … (Gripið fram í: Hefurðu ekki hlustað á neitt sem ég var að segja? ... í alla nótt …) Hér á dagskrá er umræða um skýrsluna. (Gripið fram í.) Eigum við ekki bara að snúa okkur að þeirri dagskrá sem liggur fyrir og klára að ræða þessa skýrslu? Ég held að það sé tími til kominn, (Gripið fram í: Það er enginn að …) en ekki að standa hérna frammi fyrir alþjóð og gera okkur öll að fíflum. Þetta er alveg með ólíkindum.