143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í upphafi seinni ræðu minnar lýsa áhyggjum mínum af meðferð ríkisstjórnarinnar á því mikla hagsmunamáli sem er aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það er sannkallað áhyggjuefni að ríkisstjórnin skuli hafa lagt áherslu á þessa skýrslu og gerð hennar í stjórnarsáttmála en ætli henni ekki neitt hlutverk í að leiða þjóðina að sameiginlegri niðurstöðu.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í upphafsræðu sinni hér að hann vonaðist eftir góðum skoðanaskiptum og að þessi skýrsla — er hæstv. utanríkisráðherra hér á staðnum, virðulegi forseti? Ég vildi gjarnan að hann hlýddi á mál mitt ef forseti …

(Forseti (ÞorS): Forseti skal ganga úr skugga um það.)

… vildi stoppa klukkuna.

(Forseti (ÞorS): Forseti skal sjá til þess að klukkan verði ekki til trafala fyrir hv. þingmann.)

Virðulegi forseti. Ég held áfram máli mínu fyrst hæstv. utanríkisráðherra er kominn hér í salinn.

Ég sagði hér fyrst að ég hefði áhyggjur af meðferð þessa mikla hagsmunamáls í höndum ríkisstjórnarinnar því að hún gaf fyrirheit um að þessi skýrsla yrði til efnislegrar umfjöllunar. Hæstv. ráðherra sagði í upphafsræðu sinni, þegar hann mælti fyrir málinu, að hann vænti þess að skýrslan yrði grunnur skoðanaskipta og að hún yrði til að sameina þjóðina. Það skiptir auðvitað máli að sameina þjóðina um leiðina áfram. Hæstv. utanríkisráðherra getur reynt að fá sínum skoðunum farveg en hann gerir það ekki í friði við aðila — er hæstv. utanríkisráðherra farinn aftur úr salnum? Er hægt að festa tjaldhæla í hann? (Utanrrh.: Ég heyri í þér.) Ég fer fram á að utanríkisráðherra sitji í salnum, hann er flutningsmaður þessa máls. Ég er formaður stjórnmálaflokks og ég er að óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra fylgi sínu máli úr hlaði og sitji hér.

(Forseti (ÞorS): Eins og fram kom þá er utanríkisráðherra nærstaddur, hér í hliðarsal og heyrir til hv. þingmanns.)

Hann á að sitja hér í þingsal og taka þátt í umræðum. Ég hef óskað eftir því. Ég get óskað eftir því að fleiri ráðherrar komi ef vilji er til þess. Ég er formaður stjórnmálaflokks, ég er að ræða við utanríkisráðherra um brýnt hagsmunamál þjóðarinnar og hann kemur ekkert hér inn í þingsal, stoppar í þrjár sekúndur og hleypur svo út. Það er algerlega óhugsandi.

Virðulegi forseti. Ég held þá áfram ræðu minni. Það er auðvitað þannig að hæstv. ráðherra getur sett fram skýrslu og markað stefnu í samræmi við sín sjónarmið en það er mikilvægt fyrir þjóðina að við náum sátt. Um þá stefnu sem hæstv. ráðherra hefur markað hér verður ekki sátt við aðila vinnumarkaðarins. Það verður ekki sátt við fyrirtækin í landinu og það verður ekki sátt við verkalýðshreyfinguna. Það verður ekki sátt á Alþingi Íslendinga en það er hins vegar hægt að finna samstöðu um leiðina áfram. Ég hvet þess vegna hæstv. utanríkisráðherra til að tileinka sér önnur vinnubrögð í þessu máli. Við höfum verið tilbúin til samtals, samvinnu, um meðferð þessara mála, erum það enn þá. Ég lýsi því enn og aftur yfir, fyrir hönd Samfylkingarinnar, að við erum tilbúin til samtals og ég sakna þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn komi ekki með eina einustu tillögu til samstöðu eða sátta um þetta mál.

Hvað skýrsluna varðar að öðru leyti þá er, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, ýmislegt gott í henni. En þegar við höfum verið hér í umræðunni hafa líka komið fram skallar í henni. Það er áberandi að í henni er hvergi vikið að þeim ávinningi sem væri fyrir íslenskan sjávarútveg af tollfrjálsum aðgangi fyrir uppsjávarafurðir á Evrópumarkaði.

Í umfjöllun um sjávarútveg er bara talað um styrkjakerfið, er bara talað um fiskveiðistjórnarkerfið en það er ekki talað um þennan þátt. — Nú er hæstv. utanríkisráðherra kominn í símann þannig að ég ætla bara að bíða aftur hér. (Gripið fram í: Hringdu bara í hann.) Reyndar skal ég upplýsa utanríkisráðherra um að fyrir því er löng þingvenja og á ekki að þurfa að kenna flutningsmönnum mála að þeir eiga að sitja í þingsal þegar þess er óskað og eiga samræður við þingmenn. Í þriðja skiptið á fimm mínútum er mér að takast að þurfa að byrja ræðuna frá grunni og bið hæstv. forseta að taka tillit til þess. Ég kalla eftir því að menn virði það, ráðherrar, þegar formenn í stjórnarandstöðuflokki óska eftir samtali við ráðherra um mál sem ráðherrann hefur sjálfur flutt, að menn haldi sig þá frá símanum í þær fimm mínútur sem ég hef hér til umráða.

Í þessari skýrslu er engin umfjöllun og það er þess vegna sem ég bendi á að það séu skallar í henni sem þurfi úrlausnar við í nefnd. Það er ekkert um ávinninginn sem við fengjum af aðild að Evrópusambandinu fyrir uppsjávarafurðir. Útflutningsverðmæti uppsjávartegunda var tæpir 80 milljarðar 2011, sem eru nýjustu tölurnar sem ég hef, og ég hef áætlanir um að 60% af síldaraflanum, 70% af makrílaflanum, 44% af kolmunnaaflanum og 12% af loðnuaflanum hafi verið flutt út sem fryst hráefni í blokk til frekari vinnslu í útlöndum. Miðað við að 24 milljarða útflutningur á makríl, sem var hlutdeildin af þessum tæpu 80 í heildarútflutningi uppsjávarafurða, hafi nýst í afurðir sem gætu vaxið í verði við frekari vinnslu í útlöndum er ljóst að þær gætu tífaldast í verði til neytenda. Ekki er óeðlilegt að ætla að hlutur framleiðenda hér gæti verið fimm- til sexföldun vegna þess að ekki kemur öll verðmætaaukningin í hendur framleiðandans eins. Ef við bara (Forseti hringir.) gæfum okkur, og ég verð að viðurkenna að ég er hér að byggja á frekar hráum tölum, að svona 60% af útflutningi á makríl séu (Forseti hringir.) til Evrópu, af þessum 24 milljörðum — gefum okkur bara 60%, það mun líklega verið hærra, (Forseti hringir.) þá gætum við þar verið að tala um (Forseti hringir.) umtalsverða verðmætaaukningu fyrir þjóðarbúið á makrílveiðunum einum.

Svipaða mynd má að öllum líkindum draga upp af síldarafurðunum (Forseti hringir.) þar sem við búum við mjög svipaða stöðu. Ég nefni þetta sem dæmi um það að hagsmunamatinu í þessari skýrslu sé ábótavant og það er mikilvægt að vinna málið — (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég hlýt nú að biðja um að fá aðeins tilhliðrunarsemi í tíma.

(Forseti (ÞorS): Forseti hefur þegar bætt ríflega við tímann í hvert sinn sem þingmaðurinn hefur gert hlé á ræðu sinni.)

Í hvert sinn sem hæstv. utanríkisráðherra hefur flögrað á burt.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Svo að ég ljúki hér máli mínu þá sýnir þetta mikilvægi þess (Forseti hringir.) að í utanríkismálanefnd fari fram vandleg umræða um skýrsluna, kosti hennar og galla og ekki síst um það sem vantar í hana.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til hv. þingmanna að virða ræðutíma og að misnota sér ekki mildi forseta við þessar kringumstæður.)