143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að ræða þetta. Ég skil það vel að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hrópi fram í úr sal: Eigum við ekki að ræða skýrsluna? En staða málsins er einmitt sú að menn hafa ákveðið, með því að setja fram þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum, að beina umræðunni í allt aðra átt heldur en um skýrsluna. Auðvitað væri það ákjósanlegt. Auðvitað væri það sú staða sem menn vildu vera í að fylgt væri því ferli sem sett var upp af m.a. forráðamönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að gerð yrði skýrsla þar sem litið væri yfir stöðu málsins, könnuð væri rækilega staða efnahagsmála í Evrópusambandinu og málið síðan tekið til nefndar, krufið þar rækilega og gefið nefndarálit þar sem þingið setti niður leiðarvísa um næstu skref í málinu.

En er það staðan sem við erum í? Nei, þvert á móti. Við erum í þeirri stöðu núna að inn í miðja umræðuna var keyrð þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra, beint inn í hliðina á umræðunni, sem hefur breytt henni úr því að vera umræða um það hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið, hvaða kostir og gallar séu í því fólgnir, í það hverjir eiga að taka þá ákvörðun og hvernig, og hverjir sögðu hvað og hvenær í aðdraganda síðustu kosninga og hvernig í ósköpunum þeir geta útskýrt hvar þeir standa í þessu máli í dag. Það er kjarni málsins, hv. þingmaður, við erum að ræða nákvæmlega hvernig orð og efndir fara saman í þessu máli.