143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er fullkomlega á ábyrgð stjórnarflokkanna að eyðileggja þessa skýrslu. Þeir báðu um hana og það er vítaverð meðferð á almannafé að biðja um skýrslu þegar menn leggja síðan ekkert upp úr því að eitthvað sé gert með hana og ætla ekkert að gera með. En það eru þeir sem leggja fram tillöguna um að slíta viðræðum án efnislegs rökstuðnings úr skýrslunni, áður en umræðu um skýrsluna er lokið. Það eru þeir sem þar með koma algerlega í veg fyrir að skýrslan nái nokkru flugi sem gagn til að auka samstöðu eða skilning á Evrópumálunum meðal þjóðarinnar eða þingheims. Sú atburðarás sem síðan hefur farið af stað er þess vegna óhjákvæmileg því það þarf að inna menn eftir skýringum á þessum skyndilegu sinnaskiptum.

Nóg er nú að forusta Sjálfstæðisflokksins hafi haft átta ólíkar afstöður í Evrópumálum á fimm árum. Það er bara dæmi um að menn eru duglegir að finna ný rök í lífinu og ekki endilega til vitnis um vingulshátt. Það er fjarri mér að bera það á menn. En hitt er mjög alvarlegt þegar menn brjóta skýr loforð. Og það eru ekki bara við sem segjum það. Það er alveg skýrt í fréttum sjónvarpsins hvaða loforð voru gefin af allri forustusveitinni. Hún er öll ber að ósannindum núna. Hún hefur öll gengið á bak orða sinna og ber að stærstu svikum í íslenskri stjórnmálasögu. Frammámenn í Sjálfstæðisflokknum um allt land, forustusveitin á Akureyri, forustusveitin á Ísafirði, skrifa greinar og lýsa vantrausti á forustu flokksins. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur glatað sínu lýðræðislega umboði. Hann hafði aldrei umboð til að draga aðildarumsóknina til baka. (Forseti hringir.) Það hefur Framsóknarflokkurinn ekki heldur. Ég ítreka áskorun mína: Komið þið fram, einhver úr stjórnarliðinu, (Forseti hringir.) með eitt einasta dæmi um að forustumenn Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks (Forseti hringir.) hafi sagst ætla að slíta aðildarviðræðum í aðdraganda síðustu þingkosninga. Eitt dæmi.