143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er mjög óánægð með það hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur komið inn í þessa umræðu vegna þess að við höfum ítrekað óskað eftir að hann sé hér þegar við flytjum mál okkar. Ég óskaði eftir því, hann sá sér það ekki fært. Hv. þm. Árni Páll Árnason óskaði eftir því og hæstv. ráðherra kemur hingað í mýflugumynd, rekur inn nefið, en aldrei svarar hann þeim spurningum sem við biðjum hann um að svara. Þetta eru ekkert flóknar spurningar. Þetta eru bara spurningar um það hvers vegna menn eru að flýta sér, hvers vegna menn ganga lengra en stjórnarsáttmálinn segir til um. Ef menn hafa einhverja sannfæringu fyrir því sem þeir eru að gera þá getur ekki verið erfitt að svara þessum spurningum.

Þess vegna skil ég ekki af hverju hæstv. ráðherra veigrar sér svona við því að taka þátt í þessari umræðu og svara þessum spurningum sem flýta án efa að einhverju leyti fyrir störfum þingsins, vegna þess að það er dálítið erfitt fyrir okkur hin að standa hér, reyna að ræða einhver mál þegar enginn vill svara spurningum okkar eða getur það ekki. Kannski á hæstv. ráðherra ekki svör við þeim. (ÁPÁ: Það gæti verið.) Það gæti verið. (Forseti hringir.)

Ég óska eftir því að hæstv. forseti fari þess á leit við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að hann taki einhvern þátt í umræðunum hér.