143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[00:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Merkilegasta augnablikið í þessari umræðu var líkast til þegar hæstv. utanríkisráðherra kom hingað og gerði tilraun til að skýra þann asa sem er á honum við að koma tillögu sinni fram. Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra, eða endurtók það sem hann hafði sagt í sjónvarpinu, að það væri vegna þrýstings frá Evrópusambandinu. Þegar ég gekk eftir því hvar sá þrýstingur hefði komið fram kom í ljós að hæstv. utanríkisráðherra kunni það upp á sitt hár. Hann vísaði til tveggja samtala sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins hafði gefið, bæði í EUobserver og síðan á einhverjum blaðamannafundi í Brussel. Ég tek þessar skýringar algerlega gildar. Ég sá annað viðtalið og ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að hugsanlega væri þarna um að ræða misskilning hjá hæstv. utanríkisráðherra því að það var klárt að stækkunarstjórinn var að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki málið.

Maður spyr hins vegar sjálfan sig: Hvernig ferst þeim manni sem halda á utan um fullveldisrétt Íslendinga, vera varðgæslumaður Íslendinga gagnvart öðrum ríkjum og ríkjasamböndum eins og Evrópusambandinu, ef hann leyfir sér að nota þrýsting af hálfu Evrópusambandsins sem eina af helstu skýringunum fyrir því að honum liggi svona á? En það er eina skýringin sem hæstv. ráðherra hefur gefið, a.m.k. í þessum sal. Það kann að vera að hann hafi gefið aðrar skýringar utan salar.

Hér kallaði einn hv. þingmaður fram í: Hvers vegna ekki að ræða skýrsluna? Ég spyr hv. þingmann sem svo gerði: Af hverju kemur hann ekki og ræðir þessa skýrslu? Nú er það þannig, og ég get upplýst bæði herra forseta og hv. þingmann um að sá sem hér stendur á sennilega Íslandsmet í að sitja undir ræðum um Evrópusambandið í þessum sal. Það sýnir þolgæði mitt og úthald að ég skuli enn vera svona pólitískt spengilegur þrátt fyrir það. En ég get hins vegar upplýst menn um að ég held að ég hafi aldrei á síðustu fimm árum tekið þátt í umræðu sem er jafn málefnaleg og góð og hér hefur farið fram. Ég gæti haft mörg orð um Sjálfstæðisflokkinn og forustu hans, það er ekki bara að hún hafi ekki staðið við loforð sín, hún hefur líka brotið stjórnarsáttmálann. Í stjórnarsáttmálanum er talað algerlega skýrt um að gera eigi hlé á viðræðunum, ekki að slíta þeim. Og hæstv. forsætisráðherra, leiðtogi lífs þessa brosandi þingmanns hér úti í sal, tók það algerlega skýrt fram að um væri að ræða hlé eins og önnur ríki hafa tekið. Hæstv. ráðherra vísaði til Möltu sem tók, eins og við vitum, sex ára hlé og það var alltaf hægt að taka viðræður upp aftur ef þeir vildu en menn ákváðu að slíta þeim.

Hitt þykir mér líka verra, af því að mér finnst nokkuð til um þessa skýrslu og sennilega meira en hæstv. utanríkisráðherra, að menn virðast ekki ætla að nota hana til neins þegar búið er að kasta 25 millj. kr. af skattfé borgaranna í að búa til þessa skýrslu. (Gripið fram í.) Þegar hún kemur hingað inn er varla liðinn nema þriðjungurinn af umræðunni um hana þegar ljóst er að báðir stjórnarflokkarnir eru búnir að taka ákvörðun og búnir að þrýsta í gegnum flokka sína tillögu um málsmeðferð, sem sagt að slíta áður en þeir eru búnir að ræða það.

Ég tel að það sé margt nýtt sem fram kemur í þessari skýrslu og auðvitað eru á henni gallar hér og þar en þeir eru ekkert meiri háttar. Þeir eru bara eins og mannanna verk, en skýrslan er skrifuð af heilindum. Menn eru ekki að reyna að afbaka hlutina þar. Ég gæti kannski skammað hæstv. ráðherra fyrir það að ýmislegt nýtilegt, ýmislegt fróðlegt, ýmislegt jákvætt, ýmislegt nýtt er að finna í viðaukum sem hæstv. ráðherra hefði nú kannski, til að vera fullkomlega sanngjarn, getað sett í aðalskýrsluna, en það skiptir ekki máli.

Það eru fjögur meginatriði í þessari skýrslu frá mínum bæjardyrum séð. Í fyrsta lagi sýnir hún það algerlega að það er rangt þegar menn tala um að Evrópusambandið sé sambandsríki. Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, segir að það sé algerlega skýrt að það hefur ekki eðli sambandsríkis og það er samband fullvalda ríkja. Með öðrum orðum er fullveldisspurningunni og sambandsríkisspurningunni svarað. Í öðru lagi kemur skýrt fram að allar auðlindir Íslands munu áfram vera undir forræði og eignarhaldi þess. Það kemur líka fram og er slegið í gadda að sérlausnin er fær leið samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Og í fjórða lagi kemur í ljós að það er bara einn kafli sem líklegt er að séu vandamál varðandi, það er sjávarútveginn. (Forseti hringir.) Menn geta hins vegar notað sérlausnir til að leysa það, eins og ég veit að hæstv. forseta er kunnugt um af ýmsum ræðum hér síðustu dagana.