143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[00:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru margar spurningar og ég ætla að byrja á þeim í öfugri röð. Ég er þeirrar skoðunar að helsti ágallinn við Evrópusambandið sé skrifræðið sem í því er. Ef menn velta fyrir sér þróun lýðræðisins þá hefur það verið að aukast. Evrópuþingið, sem er þó kosið beinni kosningu, hefur miklu meiri völd en áður. Það er ekki gott fyrir okkur sem erum í EES en það er gott fyrir borgarana í Evrópusambandinu.

Fram kemur í þessari skýrslu, og eru leidd rök að því, að Lissabonsáttmálinn, sem stundum er nú notaður sem svipa gegn okkur sem styðjum aðild og sagt að hann sé ígildi stjórnarskrár, er þvert á móti tæki sem færir þjóðþingunum aukin völd og hefur líka eflt og styrkt nálægðarregluna sem flytur valdið heim. Ég tel því að þróunin sé í rétta átt, en það þarf töluvert meira til viðbótar. Ég óttast samt ekki um afdrif Íslendinga. Sessunautur hv. þingmanns talar stundum um að við hefðum einungis örfá atkvæði á Evrópuþinginu og í ýmsum nefndum, eða ráðum skulum við kalla það, en það er þannig að smáríki læsa sig saman um eigin hagsmuni og verja þá vel.

Varðandi möguleika okkar til að gera viðskiptasamninga við þriðju ríki þá eru þeir ekki fyrir hendi. En þá ber þess að geta að við höfum sárafáa tvíhliða samninga, einn sem við vonumst til að verði okkur virkilega notadrjúgur í framtíðinni, Kína. En það vill svo til að Evrópusambandið mun líklega hefja viðræður um fríverslun við Kína, miðað við forsætisráðherra Breta og fyrrverandi Evrópumálaráðherra Íra sem hér var í heimsókn. Um það eru nýlegar yfirlýsingar. Okkar fríverslunarsamningar eru marghliða gegnum EFTA en EFTA fylgir alltaf ESB.

Um sjávarútvegsspurninguna er það að segja að við höfum stuðningsmenn innan Evrópusambandsins sem vilja ná fram því sem við teljum að sé (Forseti hringir.) heppilegt fyrir okkur. Ýmsa galla munu þeir örugglega líka vilja taka upp frá okkur, en þeir eru samt að læra af þeim verstu, þ.e. hvernig (Forseti hringir.) kvótakerfið hér getur farið með byggðarlög.