143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað upp fyrir einum og hálfum tíma og taldi þá víst að virðulegur forseti mundi upplýsa okkur um framhald þingfundar. Það er náttúrlega mjög furðulegt að við stöndum hér og vitum í raun og veru ekkert, ég er hér á mælendaskrá og ég hef ekki hugmynd um hvort forseti hyggist slíta fundi bráðlega eða hvort hann ætli að halda áfram lengra fram á nótt. Það er auðvitað tímaskekkja að við séum að halda hér næturfundi.

Ég ætla ekki að fara í líkingamál varðandi togara og brimskafla. Ég fékk nóg af því veturinn 2008–2009. Ég legg til að hv. þingmenn spari sér það, reyni að finna nýjar líkingar. Það væri verðugt verkefni. En ég kalla eftir því að sá forseti sem nú situr á forsetastóli upplýsi okkur sem hér erum um það hversu lengi eigi að halda áfram fundi. Það er ekki nema eðlilegt að við fáum að vita það núna þegar klukkan er farin að ganga tvö.