143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og margoft hefur komið fram undir þessum lið þykir mér eðlilegt að vita í hvaða samhengi ég tek til máls hér sem þingmaður. Ég vil vita hvort það sé í raun og sann áætlun forseta að setja á dagskrá síðar í nótt þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki.

Sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar átti að vera grundvöllur undir frekari ákvarðanatöku um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég trúi því ekki áður en ég tek á því að forseti ætli að meðhöndla þingmenn eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur meðhöndlað kjósendur sína með því að narra okkur og láta okkur halda að við séum þátttakendur í einhverju allt öðru en lagt var upp með. (Gripið fram í: Heyr. Heyr.)