143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[01:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að fólk getur sótt sér allra handa rök í þessa skýrslu enda er það svo með jafnumdeilt mál og Evrópusambandsaðild að fólk lítur til mismunandi málaflokka, það leggur mismunandi áherslur á ólík málefnasvið. Hér vegast á ýmsir hagsmunir og það er ólíkt það hagsmunamat sem liggur til grundvallar afstöðu hvers og eins.

Af því að minnst er á kaflann um evruna þá sakna ég hans auðvitað eða sérstaklega að aðeins er rætt um möguleika til að komast út úr gjaldmiðilshöftunum en eftir að samninganefndin var leyst upp var því samstarfi hætt til að koma Íslandi út úr fjármagnshöftunum en það er auðvitað til skemmri tíma hið stóra hagsmunamál Íslands.

Ég fór yfir veikleika eins og t.d. varðandi fullyrðingu um eignarrétt á aflaheimildum við Íslandsstrendur eða innan íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Það eru augljóslega rangar fullyrðingar sem hægt hefði verið að lagfæra ef skýrslan hefði fengið betri vinnslutíma. Ég tel styrkleikana vera þá að skýrslan fer vítt yfir sviðið, gefur ágætisyfirlit, en að sjálfsögðu tel ég mikilvægt að fá líka þá skýrslu sem er í vinnslu hjá Alþjóðamálastofnun þar sem kannski koma fram fleiri sjónarhorn aðila vinnumarkaðarins.