143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg borðleggjandi að þessir fundir í fyrramálið hljóta að verða blásnir af vegna þess að það er náttúrlega ekki hægt að bjóða okkur upp á þetta. Ég geri ráð fyrir að það verði gert og óska eftir því hér með og óska eftir viðbrögðum forseta við þeirri ósk minni.

Virðulegi forseti. Við erum búin að vera að dingla okkur í vetur í þessu þingi. Hér hafa verið þingdagar sem hafa verið um einn og hálfur tími, tveir tímar kannski á góðum degi. Það hefur verið óskaplega lítið að gera hér, óvenjulítið.

Eftir föstudaginn síðasta breyttist allt, hvers vegna? Eitt þingmál er sett á dagskrá um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þá breytist allt vinnulag í þinginu. Allt í einu á að keyra hér næturfundi dag eftir dag. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna? Hvað býr þarna að baki? Það er ekki eins og korter sé í lokun á búðinni, það er ekki þannig. Þingið á tvo og hálfan mánuð eftir. (Forseti hringir.) Við verðum að fá svör við þessu. Annars er maður farinn að halda að þarna búi bara (Forseti hringir.) eitthvað meiri háttar leynimakk að baki, einhver meiri háttar áform (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar sem þola ekki dagsljósið.