143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef í raun ekki enn þá fengið svar við þeirri spurningu hvort forseti telji sæmandi að þingmaður haldi fyrstu ræðu sína þegar klukkan er langt gengin þrjú að nóttu. Ef svo er vil ég velta fyrir mér, úr því að forseti telur sæmandi yfir höfuð að halda fund um svo mikilvægt mál svo seint, hvort forseti telji ekki rétt að ráðherrar séu viðstaddir. Ég tek þó undir það sem hv. þm. Kristján Möller segir að því er varðar fjármálaráðherra og fjarveru hans og ástæðu fyrir því, en að aðrir ráðherrar séu viðstaddir. Er það þannig að þingmenn eigi að taka þátt í þingstörfum sólarhringana á enda en ráðherrar ekki?

Svo vil ég spyrja virðulegan forseta um skilning hans á því hvenær kvöldfundur breytist í morgunfund. Staðreyndin er sú að mælendaskrá eins og hún lítur út núna mun ekki tæmast fyrr en upp úr átta (Forseti hringir.) í fyrramálið, að mér sýnist. Ég vil fylgja eftir ósk hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, (Forseti hringir.) það stendur eftir að ekki er boðlegt undir nokkrum kringumstæðum að gera ráð fyrir því að nefndarfundir hefjist kl. 8.30 (Forseti hringir.)eftir það sem á undan er gengið. Forseti hlýtur að hafa einhverja milligöngu (Forseti hringir.) um að því verði sýndur sá skilningur að þeir fundir verði blásnir af.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)