143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er svolítið dapurlegt að þurfa að koma hér endalaust að spyrja sömu spurningar en fá engin svör. Lengd fundar ræðst kannski af því hversu lengi það tefst að hæstv. forseti svari. Við erum hér nokkur búin að reikna það út að við klárum þetta aldrei fyrr en kl. átta eða níu í fyrramálið. Ég er þegar búinn að gera ráðstafanir til að afboða mig á fund í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er sjálfsagt að skipta vöktum. Ég treysti því að forseti kalli út fleiri varaforseta og standi við það sem var reglan þegar ég var forseti, að menn noti stjórnarliða til að standa í ræðustól svo þeir geti kannski svarað fyrir það sem hér er að gerast.

Við höfum ekki fengið svör þrátt fyrir að ítrekað hafi verið leitað eftir þeim. Hvers vegna er verið að hraða þessari umræðu? Þingið hefur verið aðgerðalaust meira og minna það sem af er þingi. Við höfum unnið hörkuvel í nefndum þar sem mál hafa komið fyrir þar, lagt mikla vinnu á okkur til að koma málum inn í þingið og hjálpa ríkisstjórninni að afgreiða einhver mál. Þau eru væntanleg á dagskrá fljótlega. Ef menn ætla að keyra þetta með þessum hætti er hætt við að mál sem eiga að koma inn dragist eitthvað fram eftir marsmánuði.

Ég skora á hæstv. forseta að kalla saman þá aðila sem stýra þingi og þeir ákveði hvort þeir vilji að við stöndum vaktina í alla nótt og fram undir þingfund kl. hálfellefu í von um að hugsanlega verði hægt að ljúka þessu máli eða hvort menn ætla að ljúka fundi núna og gera þetta með einhverjum sóma á morgun.