143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú hefur forseti hlustað á mjög góð rök hv. þingmanna fyrir því að nú sé skynsamlegt að slíta fundi. Ég vona að virðulegur forseti hafi sannfærst um það eftir að hafa hlýtt á þessi skynsamlegu rök hv. þingmanna.

Það er enginn bragur á því að hér fari þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, í sína fyrstu ræðu. En setjum svo að virðulegur forseti ætli sér samt sem áður að halda umræðu áfram þá hlýtur að vera lágmarkskrafa að hæstv. utanríkisráðherra sitji í salnum undir ræðu hv. þingmanns. Fyrst formaður Sjálfstæðisflokksins er forfallaður krefst ég þess að staðgengill hans komi hingað. Annað er ekki boðlegt (Forseti hringir.) ef halda á áfram með þennan fund og hv. þingmenn eru í sínum fyrstu ræðum.