143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi að ég ætti falleg svör við þessu svona um miðja nótt. Ég vil auðvitað enn trúa því að fleiri en einn og fleiri en tveir leynist í þingflokkum stjórnarflokkanna sem vilja líta á þetta sem lýðræðisverkefni. Ég hef raunar orðið vör við það í samfélaginu, og þá er ég að tala um í kringum atvinnulífið og á hægri væng íslenskra stjórnmála, að margir eru mjög hugsi yfir þeirri leið að kasta þessari vinnu fyrir róða og loka dyrum, ekki síst vegna þess að við erum nú að stíga skref, mjög viðkvæm skref, út úr efnahagshruni, sögulegu efnahagshruni, og margir eru þeirrar skoðunar að þetta sé ekki rétti tíminn til að taka svona afdrifaríkar ákvarðanir.

Þingsályktunartillaga okkar Vinstri grænna snýst um að horfa á þetta fyrst og fremst sem lýðræðisverkefni og reyna að ná utan um þetta allt saman og að sýna fram á að hinn pólitíski ómöguleiki er ekki eina leiðin til að nálgast þetta. Eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Árna Pál Árnason eru fleiri þjóðir sem hafa komist (Forseti hringir.) að þeirri niðurstöðu að hinn pólitíski ómöguleiki þarf ekki endilega að vera fyrir hendi, (Forseti hringir.) ekki nema kannski ef maður vill það sjálfur.