143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[02:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nú eitt af því sem var hluti af kosningaloforðum beggja stjórnarflokkanna, þ.e. að gefa þjóðinni tækifæri til að koma að málinu. Raunar voru spor þessara loforða líka í stjórnarsáttmálanum, þar sem talað er um margumrædda skýrslu og ekki bara sagt að hún yrði rædd á Alþingi heldur var líka sagt að hún yrði kynnt þjóðinni.

Ég hef ekki enn orðið vör við það með hvaða hætti þessi kynning á að fara fram. Það er kannski ástæða til að velta því upp hvort námskeið sé í pípunum eða kannski sjónvarpsþættir, útvarpsþættir, glærukynning, vefsetur eða eitthvað. Ég veit ekki hvernig á að kynna þjóðinni þessa niðurstöðu, ég hef a.m.k. ekki orðið vör við það, þannig að þarna togast á ákveðinn sýndarveruleiki sem snýst um þetta samtal við þjóðina. Svo sjáum við hins vegar í hverju málinu á fætur öðru að menn eru orðnir býsna forhertir í afstöðu sinni. Ég vona auðvitað að menn geti losað að einhverju leyti um þá hnúta en óttast um leið að hér séu á ferðinni mjög djúpar rætur hagsmunagæslu þessara tveggja flokka.