143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þetta afhjúpar náttúrlega það raunalega í þessu öllu saman sem eru innri mótsagnir. Það eru annars vegar fyrirheitin um opna og lýðræðislega umræðu og hins vegar hefðbundin valdafautatillaga, eins og kom fram frá hæstv. utanríkisráðherra á föstudaginn var.

Þessar tímalínur verða ekki keyrðar saman, sjáið þið. Við erum að tala um skýrslu sem á að liggja til grundvallar umræðu og hún á að fá umræðu í samfélaginu og það á að kynna hana fyrir þjóðinni inn í framtíðina og bæta þar við einhverjum umhverfismálum, sem ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þurfi að gera. En á sama tíma á að fara á methraða með þessa þingsályktunartillögu í gegn. Það einfaldlega samrýmist ekki á nokkurn hátt. Við sem höfum verið hér í þingsal höfum ekki fengið nein svör um það hvernig í ósköpunum þau tvö tímaplön leggjast saman, það er eiginlega algjörlega óskiljanlegt hvernig það á að vera.

Því miður er líka táknrænt (Forseti hringir.) að það er akkúrat kynningin á skýrslunni til þjóðarinnar sem er fyrir borð borin.