143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef sannast sagna velt þessu svolítið fyrir mér af því að hæstvirtir forustumenn ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafa báðir talað dálítið gauralega um að þeir hafi talað við menn í Evrópu og útskýrt fyrir þeim hvernig staðan væri á Íslandi og þá hafi menn farið að hlæja og fundist þetta voða asnalegt á Íslandi.

Ég er að reyna að sjá þessi samtöl fyrir mér. Ég er að reyna að átta mig á þeim. Hvernig eru þessi samtöl? Eru þetta formlegir fundir eða er þetta bara spjall einhvers staðar á veitingahúsi eða annars staðar? Svo sé ég fyrir mér annars vegar Bjarna Benediktsson, eins og hann hefur komið mér fyrir sjónir, t.d. í Kastljósviðtali um daginn, og hins vegar Sigmund Davíð Gunnlaugsson eins og hann var í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins Baldurssonar, þá tvo tala við einhverja menn í Evrópu. Þá sé ég fyrir mér að það er auðvitað allt ómögulegt. [Hlátur í þingsal.] Það skiptir engu máli hvaða umræða kæmi upp við fólk í Evrópu. Mér finnst það bara mjög eðlileg leiðsögn frá fólki í Evrópu að segja: Nei, vitið þið hvað, þetta er ómögulegt. [Hlátrasköll í þingsal.]