143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni. Ég hef ekki náð utan um þá hugsun hæstvirtra ráðherra í ríkisstjórninni að þeir geti ekki farið að vilja þjóðarinnar í þessu máli.

Mér finnst líka að sú ákvörðun sem liggur fyrir í þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra feli í sér einhvers konar beiðni um „kollektífa“ afneitun, með leyfi forseta, sameiginlega afneitun þjóðarinnar á einhverjum veruleika sem við höfum ekki fengið almennilega upp á borðið þar sem farið er fram á að allir sameinist um að stinga höfðinu í sandinn og skoði ekki málið frá upphafi til enda.

Það getur vel verið að hæstv. utanríkisráðherra finnist að hann hafi fengið nægar upplýsingar til þess að móta sína skoðun, og ég er viss um að svo er, en lykilatriðið í þessu er að hann getur ekki tekið þá ákvörðun og hefur ekki einu sinni umboð til þess að taka þá ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar.