143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[03:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef líka velt fyrir mér þeirri hlið málsins sem afhjúpaðist þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði á einhverjum fundi að það væri óeðlilegt að vera ekki í ríkisstjórn, að Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að vera í ríkisstjórn því að annað væri óeðlilegt ástand. Mér fannst þetta allt í einu tengjast umræðunni um ómöguleika, að það væri bara: Ef við ráðum ekki og stjórnum ekki þá er óeðlilegt ástand ríkjandi á Íslandi.

Stundum finnst mér eins og núverandi ríkisstjórn sé ekki ríkisstjórn heldur stjórnarandstaða síðustu ríkisstjórnar, hvernig menn tala og hvernig þeir nálgast hluti og hvernig þeir taka slaginn, eru heiftúðugir og óbilgjarnir, snúist um það að þeir séu enn þá í stjórnarandstöðu gagnvart þeirri ríkisstjórn sem var hér við völd á síðasta kjörtímabili og þess vegna skorti að þeir hefji sig upp yfir hefðbundna skotgrafapólitík og taki utan um málið (Forseti hringir.) eins og gott forustufólk þarf að geta gert, (Forseti hringir.) allra helst í svona stórum málum.