143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Forseti. Forseta Alþingis getur ekki verið alvara með það hvernig haldið er á þinghaldinu þessa dagana. Nýkomið mál inn í þingið og keyrður hér næturfundur til klukkan að ganga fjögur í nótt í febrúarmánuði. Stjarnfræðileg svik Sjálfstæðisflokksins á kosningaloforðum sínum koma jafnvel okkur, andstæðingum hans, á óvart. Það er að vissu leyti hægt að sýna því skilning að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leggi á það ríka áherslu að svik þeirra við þjóðina séu rædd í skjóli nætur, en það er hlutverk forseta Alþingis að gæta jafnræðis hér í þinginu og þess að stór málefni er þjóðina varða séu rædd í björtu og að hér sé ekki verið að ala á ófriði dag eftir dag með því að keyra jafn einstrengingslega línu og gert hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég treysti því að forseti Alþingis setji ráðherrum hér einhver mörk um það hvernig er hægt að ryðja út dagskrá þingsins og stífla hana fyrir þeim fjölmörgu mikilvægu þjóðþrifamálum (Forseti hringir.) sem hér þurfa að komast til umræðu. Ég nefni náttúruverndarlögin og minni á að það mál þarf að afgreiða fyrir 1. apríl. (Forseti hringir.) Að óbreyttu stefnir ekki í að það takist. Ég hvet til þess að það mál verði tekið fyrst á dagskrá í dag, virðulegur forseti.