143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur hélt sína fyrstu ræðu í umræðu um skýrslu klukkan hálfþrjú í nótt. Umræðunni lauk með andsvörum klukkan rúmlega þrjú og það var algjörlega óútskýrt af hendi forseta hvaða utanaðkomandi eða innri þrýstingur væri á störf þingsins til að slíkt þætti sæmandi, að þingflokksformaður eins stjórnarandstöðuflokksins væri settur í þá stöðu að flytja fyrstu ræðu sína í umræðu um mál, sem er ekki að mínu viti dagsetningarmál, klukkan hálfþrjú í nótt. Það eru tveir og hálfur mánuður eftir af störfum þingsins miðað við starfsáætlun og stjórnarandstaðan er algjörlega óútskýrt sett í þessa stöðu. Það endurspeglar hörkuna í málinu og endurspeglar eða varpar að minnsta kosti ljósi á þá vangaveltu (Forseti hringir.) að hér sé það framkvæmdarvaldið sem heldur um stjórn þingsins. Eða ég spyr: Hvernig getur forseti útskýrt þá stöðu sem upp kom hér í nótt og virðist ekki nokkur endir á?