143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðgátan mikla um ástæður þessa flumbrugangs og þessarar framgöngu ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið leyst. Við höfum upplifað það hér á síðustu dögum að við höfum þurft að inna ríkisstjórnina og ríkisstjórnarmeirihlutann ítrekað eftir skýringum á framgöngunni. Við höfum þurft hér aftur og aftur að fara í umræður um fundarstjórn forseta til að fá lágmarkssvör við eðlilegum athugasemdum og þegar horft er til baka blasir það við hvílíkt sjálfskaparvíti lengd umræðunnar þessa viku hefur verið af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans.

Ef menn hefðu komið hér með skýrar áætlanir og skýringar, svarað strax eðlilegum athugasemdum eins og um hina óboðlegu greinargerð tillögunnar, hefði þessu máli getað undið fram með allt öðrum hætti. Enn er ekki ljóst hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda á málinu. Hún stefnir því í fullkominn átakafarveg, hún ljær ekki máls á neinni sýn (Forseti hringir.) um sátt eða samstöðu í þessu mikla hagsmunamáli (Forseti hringir.) og henni er að takast (Forseti hringir.) að gera Evrópumálið að enn erfiðara átakamáli meðal þjóðarinnar en það var fyrir.