143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni uppákomu sem varð hér í þingsal í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra gerði sér lítið fyrir og nálgaðist ræðumann í ræðustól í þingsal og rétti honum pappíra. Ég vil bera það undir forseta hvort þetta geti samræmst þingsköpum og þeim venjum sem eru um samtal millum fólks í þingsal.

Það sjá allir hversu ótækt það væri ef aðrir þingmenn stæðu í kringum ræðustólinn og væru í því að sýna ræðumönnum einhverja pappíra. Ég er hræddur um að það mundi fljótlega þróast út í mjög óæskilega hluti, virðulegur forseti. Ég vil fá álit forseta á þessu vegna þess að sá þingmaður, sem auðvitað var gróflega misboðið með þessari framkomu, hefur komið fram hér síðan og beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla í kjölfarið. En það er enga iðrun að sjá hjá þeim sem ögraði (Forseti hringir.) hv. þingmanni með þessum hætti.