143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að freista þess að nálgast á uppbyggilegan hátt þann efnislega hnút sem við sitjum uppi með hér. Ég held að það sé raunar afar mikilvægt að við reynum hvert um sig að koma sjónarmiðunum upp úr skotgröfunum og nálgast viðfangsefnið sem lýðræðisverkefni miklu frekar en sem hefðbundið átakaverkefni þar sem meiri hlutinn ræður.

Þetta er einfaldlega svoleiðis mál að við getum náð utan um það inn í framtíðina með því að fara þá sáttaleið sem þingflokkur Vinstri grænna leggur til. Þar eru ekki ýtrustu kröfur Vinstri grænna en þar eru heldur ekki ýtrustu kröfur neins. Það er tilraun til þess, af væntumþykju við þingræðið og þjóðina, að nálgast þetta sem lýðræðisverkefni, sem breiða uppbyggilega nálgun. (Forseti hringir.) Ég vænti þess að við notum hér öll nefndavikuna til að ígrunda það (Forseti hringir.) af sanngirni og yfirvegun hvort það gæti verið leið sem væri þinginu til sóma og þjóðinni til gleði.