143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alveg rétt að þingmenn haga oft og tíðum málum sínum svolítið eftir því hvar þeir sitja, stjórnarmegin eða stjórnarandstöðumegin. Auðvitað þurfum við að passa okkur á því að ýkja hlutina ekki þannig að það sé ekki hægt að snúa til baka. Umræðan hér hefur svo sannarlega einkennst af gífuryrðum á báða vegu og skiljanlega því að fólk er í uppnámi. Ég hvet samt þingmenn til að spara gífuryrðin ef mögulegt er því að við lendum alltaf aftur á punkti eitt, alveg eins og þegar formaður utanríkismálanefndar kallaði í gær nefndarálit ritdóma. Það er ekki til að auka virðingu Alþingis eða trú okkar á að ferlið með þessa skýrslu verði eðlilegt. Við verðum að passa okkur og ég hvet fólk til að fara sáttaleiðina sem VG hefur lagt af stað með. (Forseti hringir.) Það er ekki draumastaða neins flokks en þó kannski besta leiðin fyrir þjóðina.