143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir ekki mikið meira en ári síðan gengu tveir hv. þingmenn með skilti hér fyrir framan ræðupúltið á meðan sá sem nú er hæstv. menntamálaráðherra var í pontu. Hann sá það ekki einu sinni sjálfur. Forseti sem þá var sleit umsvifalaust fundi, gerði hlé á þingfundi. Þingmennirnir tveir sem gengu hér fram hjá réttu ekki hv. þingmanni nokkurn skapaðan hlut í pontuna, komu hér í stólinn og báðust afsökunar á framferði sínu og var fundi slitið eftir það.

Ég vil bera það saman við viðbrögð hæstv. forseta í gær við þeirri uppákomu sem varð hérna þegar hv. þm. Katrín Júlíusdóttir var í stólnum.

Gott og vel. Stjórnarmeirihlutinn lofaði því að bera áframhald viðræðnanna undir þjóðina en er nú að gera þveröfugt við það sem hann lofaði. Hæstv. menntamálaráðherra sagði hér í gær að þegar staðreyndir breyttust skipti hann um skoðun. En hvaða staðreyndir hafa breyst í þessu máli? Akkúrat engar. Hvaða staðreyndir hafa breyst frá því að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra sátu á Laugarvatni og töluðu um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fara ætti fram á þessu kjörtímabili? (Forseti hringir.) Ekki nokkur skapaður hlutur. Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur (Forseti hringir.) að koma hér upp og útskýra hvaða staðreyndir hafa breyst í þessu máli. Hér er verið að bjóða ákveðna lausn, ákveðna leið til að bjarga andliti þessarar ríkisstjórnar. Af hverju þiggja menn það ekki?