143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.

[11:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en held að hann ætti eiginlega að hafa meiri áhyggjur af sjálfum sér en þeirri sem hér stendur. Ef kjósendur fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eiga að hafa áhyggjur af þessum ummælum, hvernig ætlar þessi formaður Samfylkingarinnar þá að útskýra fyrir sömu kjósendum hvers vegna hann kom ekki Íslandi í Evrópusambandið eins og Samfylkingin marglofaði? Hún sat í ríkisstjórn í fjögur ár og tókst ekki að klára málið. Eins og skýrslan sem nú er til umræðu á þingi sýnir komst málið ekki einu sinni hálfa leið og það er ástæðan fyrir því að menn eru að ræða hér málin aftur og aftur.

Ég held að formaður Samfylkingarinnar, með mikilli virðingu fyrir honum og hans flokki, ætti að hafa aðeins meiri áhyggjur af sjálfum sér því að þar eru hin raunverulegu svik í Evrópusambandsmálinu. Ef einhverjir hafa svikið gefin loforð í Evrópusambandsmálum er það sá sem hér spurði.

En hvað varðar þessa þætti kemur skýrt fram, í þessum ummælum mínum sem vitnað er til, að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum þjóðarinnar ekki best borgið innan Evrópusambandsins, hefur aldrei talið það. Hið sama er að segja um samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Vilji þessarar ríkisstjórnar er alveg skýr þar. Ég hvet hv. þingmann líka til að lesa þingsályktunartillöguna vegna þess að þar kemur fram það nákvæmlega sama og ítrekað sagt að vilji þjóðin, eins og ég sagði í þessu viðtali, á einhverjum tímapunkti ganga til þessara viðræðna og klára þær verður það borið undir þjóðina. Það hefði kannski betur verið gert á síðasta kjörtímabili þegar lagðar voru fram hér slíkar tillögur. Það hefði betur verið gert, þá hefði verkefnið kannski verið unnið aðeins öðruvísi.

Ég hvet hv. þingmann, formann Samfylkingarinnar, til að hafa ekki áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. Stefna hans í Evrópumálum hefur verið skýr alla tíð og afstaða hans kom fram á landsfundi. Það kemur líka fram í þessari þingsályktunartillögu að vilji þjóðin taka nýjan kúrs í málinu fer hún í þá átt og það verður gert í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem hefur hins vegar gerst og hv. þingmaður gleymir er að í þeirri skýrslu sem nú hefur verið lögð fram, og er undirstaða áframhaldandi ákvörðunartöku í málinu, kemur skýrt fram að Ísland fær ekki undanþágur, (Forseti hringir.) Ísland er á þeim stað að viðræðurnar þjóna ekki tilgangi og hagsmunum landsins eins og staðan er núna. Mitt svar er skýrt og ég hvet hv. þingmann aftur til að hafa aðeins meiri áhyggjur af sínum eigin flokki.