143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.

[11:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að líkja efndum kosningaloforða almennt séð við það að hafa vald á því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, lofa því að það verði gert og svíkja það. Hæstv. innanríkisráðherra hefur vald á því eins og forusta Sjálfstæðisflokksins að efna til atkvæðagreiðslu sem lofað var með skýrum hætti.

Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna að ákveða hvort gengið verði lengra.

Þetta sagði hæstv. ráðherra og hún er ber að skýrum svikum. Það er augljóst af lestri þingsályktunartillögunnar, það er ekki verið að efna þar til neinnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Virðulegi forseti. Forkólfar Sjálfstæðisflokksins úti um allt land, á Ísafirði, Akureyri, oddvitinn hér í Reykjavík, koma allir fram og segja: Við viljum að þessi kosningaloforð frá því fyrir síðustu kosningar verði efnd.

Þeir óttast auðvitað stefnumótið við kjósendur sína í vor. Það er skiljanlegt.

Ég bið hæstv. innanríkisráðherra að upplýsa mig um það, ef þetta eru ekki svik, getur hún nefnt (Forseti hringir.) mér eitt dæmi um að forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins hafi sagt að þeir ætluðu að slíta aðildarviðræðunum. Eitt dæmi, ég bið bara um eitt einasta dæmi. Það er ekki til.