143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.

[11:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram í ummælum alþingismanna af hálfu Sjálfstæðisflokksins, það kom fram í umræðum um þessi mál á sínum tíma margítrekað að Sjálfstæðisflokkurinn teldi að þessi vegferð, þ.e. að sækja um aðild að Evrópusambandinu, væri ekki farsæl nema þjóðin yrði spurð að því áður, og hefur margítrekað og margoft komið fram.

Eins hefur það komið fram, eins og ég sagði áðan, en hv. þingmaður kýs að hlusta ekki á það, að Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum þjóðarinnar ekki best borgið innan Evrópusambandsins. Um það snýst þessi ágreiningur, um það að hv. þm. Árni Páll Árnason stendur frammi fyrir því sem formaður Samfylkingarinnar að ef þetta mál fer út af dagskrá Alþingis hefur Samfylkingin ekki neitt mál til að berjast fyrir lengur. (Gripið fram í.) Það er ekki nema von að formaður Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) berjist um á hæl og hnakka og kjósi að lesa ekki ályktunina eins og hún til dæmis liggur hér fyrir þar sem er talað um það, eins og ég sagði í títtnefndu viðtali, að vilji þjóðin á einhverjum tímapunkti halda áfram með verkefnið fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það stendur líka í þingsályktunartillögunni. Ég (Forseti hringir.) skil vel, eins og ég segi, að formaður Samfylkingarinnar hafi áhyggjur af málinu enda eru öll málin hans farin um leið (Forseti hringir.) og þetta mál fer út af borðinu. Það er vegna þess (Forseti hringir.) að þjóðin kaus í síðustu kosningum ekki Samfylkinguna. Hún kaus ekki flokkana (Forseti hringir.) sem vildu ganga í Evrópusambandið. Hún kaus aðra ríkisstjórn og það er erfitt að lifa með því og sætta sig við það, en við það (Gripið fram í: Fölskum forsendum.) — ég held að hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að bera meiri virðingu fyrir þjóðinni en svo að segja að flokkarnir sem þjóðin kýs til ríkisstjórnarsetu (Forseti hringir.) hafi kosið hana á fölskum forsendum. Ég held að menn ættu að bera meiri virðingu fyrir skynsemi þjóðarinnar.