143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

staða ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[11:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar að ítreka það að hún svari því hvenær við megum eiga von á að þær tillögur líti dagsins ljós. Mér fannst mjög mikilvægt það sem hæstv. ráðherra sagði, að hennar sýn væri sú að húsnæðisstefnan yrði fjölbreytt. Þar með segir hæstv. ráðherra að hverfa eigi frá þeirri séreignarstefnu sem kannski var aldrei mótuð eða ákveðin en hefur eigi að síður verið raunin í íslensku samfélagi undanfarna áratugi. Það er mjög mikilvæg sýn.

Mig langar hins vegar að bæta við þá spurningu af því að mismunandi er hvernig við nálgumst það markmið að stuðla að þessum fjölbreytileika. Telur ráðherra að þar muni félagslegur íbúðalánasjóður í eigu hins opinbera og sveitarfélög hafa hlutverki að gegna, eða horfir hæstv. ráðherra fremur til markaðslausna til að ná markmiði um fjölbreytt húsnæði og öruggt?